Þróunarverkefni

Verkefnin eru mikilvægur hlekkur í framtíðararðsemi félagsins

Unnið að þróun um 700 íbúða og um 140 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis

Byggingarréttir og ótekjuberandi eignir voru metnar á 8.615 millj. kr. í árslok 2023. Þar á meðal eru fasteignir sem mynda leigutekjur og metnar væru á um 3.750 millj. kr. ef notuð væri sama aðferðafræði við virðismat þeirra og beitt er við virðismat tekjuberandi eigna.

Helstu þróunarreitirnir


Korputún

Nýr 90 þús. fermetra atvinnukjarni í þróun á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.

Deiliskipulag hefur tekið gildi og reiknað er með að gatnagerð hefjist á næstu mánuðum.

Viðræður við fyrstu rekstraraðila eru hafnar og markaðssetning lóða og leiguhúsnæðis hefst fljótlega.

Nánari upplýsingar á www.korputun.is

  • Fjölbreytt húsnæði fyrir alls konar fyrirtæki

    Húsnæði fyrir verslanir, skrifstofur og lagerhúsnæði frá 500-10.000 fermetrum gerir Korputún að eftirsóttum kosti fyrir ýmsar tegundir fyrirtækja. Húsnæðið býr yfir ólíkum kostum, sumir reitirnir búa yfir miklum sýnileika og góðu aðgengi á meðan útsýni yfir náttúru verður aðdráttarafl annarra reita á svæðinu.

  • Samgöngumiðað skipulag

    Allir vegir liggja að Korputúni

    Korputún er gífurlega vel staðsett með góðu aðgengi frá Vesturlandsvegi. Hverfið er skipulagt í kringum Borgarlínu sem ráðgert er að liggi þvert í gegnum hverfið.

  • Korputún - fyrsta BREEAM vistvottaða atvinnuhverfið

    Korputún - fyrsta BREEAM vistvottaða atvinnuhverfið á Íslandi

    Með því að BREEAM Communities votta skipulagið er tryggt að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði.


Fyrsti áfangi Kringlureits

Kringlureitur

Gert er ráð fyrir byggingu allt að 500 íbúða í fyrsta áfanga Kringlureitsins. Deiliskipulagsvinna er unnin náið með Reykjavíkurborg. Borgin hefur sett fram tímalínu sem miðar að því að afgreiðsla á deiliskipulagi til auglýsingar geti orðið á árinu.

Danska arkitektastofan Henning Larsen leiðir verkefnið með aðstoð THG arkitekta.

  • BREEAM vistvottað hverfi

    Með því að vistvotta skipulag hverfisins tryggjum við að hugað sé að mikilvægustu þáttum sjálfbærni strax frá upphafi. Þannig stuðlum við að hverfi þar sem fólki getur liðið vel í sátt við umhverfið til langrar framtíðar.

  • Allt að 500 nýjar íbúðir í fyrsta áfanga

    Áætlað byggingarmagn er um 50 þúsund fermetrar. Bílastæði verða neðanjarðar en einnig er reiknað með menningarhúsi á reitnum.

  • Kringlan 1-3

    Fyrsti áfangi skipulagsins markast af Kringlumýrarbraut, Listabraut og götunni Kringlunni. Svæðið nær upp að Kringlunni 5, húsnæði Sjóvár.


Hyatt Centric á Laugavegi 176

Framkvæmdir eru hafnar við byggingu nýs tæplega 10 þúsund fermetra hótels við Laugaveg 176. Hótelið er að hluta til byggt á grunni gamla sjónvarpshússins en það er stækkað um tæpa 6.000 fermetra. Reiknað er með 170 herbergjum, veitingahúsi, veislusal og líkamsrækt.


Nauthólsvegur

Reykjavíkurborg fór af stað með hugmyndaleit um uppbyggingu lífsgæðakjarna í borginni. Reitir voru valdir til áframhaldandi viðræðna um uppbyggingu lífsgæðakjarna á Loftleiðasvæðinu þar sem búseta, samvera, heilsuefling og mannlíf eru lykilstef. Einn valmöguleikanna í skoðun er hjúkrunarheimili í skrifstofubyggingunni við Nauthólsveg.

Aðrir byggingarréttir og þróunareignir

Aðrir byggingarréttir félagsins eru tengdir lykileignum í eignasafni félagsins á höfuðborgarsvæðinu, t.d. á félagið verslunarreit í Vogabyggð og byggingarrétt á lóðinni að Höfðabakka 9.

Metróreitur

Við Suðurlandsbraut 56, á Metróreit í Skeifunni, er til skoðunar að byggja um 87 íbúðir í tveim­ur sam­tengd­um 5-7 hæða bygg­ing­um og 1.300 fermetra af versl­un­ar- og þjón­ustu­rými. Gert er ráð fyr­ir torg­rými, borg­arg­arði og tengingu við biðstöð Borgarlínu. Tillögur hafa verið kynntar borgaryfirvöldum og eru þær í skoðun.

Múlareitur

Reitir keyptu Hallarmúla 2 í ársbyrjun 2021 ásamt tilheyrandi byggingarheimildum. Lóðin var áður hluti af Suðurlandsbraut 2 þar sem Hotel Hilton Reykjavik Nordica stendur. Á lóðunum tveimur eru áhugaverðir þróunarmöguleikar í skoðun en kynntar hafa verið hugmyndir að heildstæðu nýju skipulagi með áherslu á íbúðir.

Yfirlit yfir þróunarverkefni