Ársskýrsla 2023
Árs- og sjálfbærniskýrsla Reita fasteignafélags 2023
Ávarp forstjóra
“Vöxtur Reita grundvallast á sterku og stöðugu fjárflæði frá útleigu sem nýtist til fasteignakaupa, endurbótaverkefna eða þróunar.”
- Guðjón Auðunsson, forstjóri
Dæmin sýna að uppskeran af fjárfestingaverkefnum hefur verið frábær undanfarið. Fyrsta rekstrarár Kúmen í Kringlunni skilaði stórauknum gestafjölda í húsið og Holtagarðar tóku stakkaskiptum með fimm nýjum verslunum. Stækkun vöruhúss Aðfanga um 2.700 fermetra var liður í framlengdum leigusamningi um húsnæði í Skútuvogi og Pósthús mathöll í miðbænum hefur reynst afar vinsæl.
Vegferðin heldur áfram, verkefni dagsins eru þróun hótels við Laugaveg 176, áframhaldandi uppbygging 7.000 fermetra sérhæfðs spítalahúsnæðis við Ármúla 7-9 og væntingar eru um að mikilvægir áfangar klárist í skipulagningu fyrsta áfanga Kringlureitsins. Þá er reiknað með að gatnagerð hefjist á næstu mánuðum í Korputúni, nýju 90 þúsund fermetra atvinnuhverfi sem Reitir eru með í mótun á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur.
Reitir er stöndugt félag. Grundvöllur þessa stöðugleika er safn eftirsóttra fasteigna og góð langtímasambönd við viðskiptavini byggð á jákvæðni, samvinnu og fagmennsku. Með samvinnu geta Reitir og leigutakar gripið tækifæri sem væru óraunhæf án tilkomu sérhæfingar leigutakans og vandaðs klæðskerasniðins atvinnuhúsnæðis. Skýrustu dæmin um slíka samvinnu eru fyrrnefnd verkefni með Klíníkinni í Ármúla og Aðföngum í Skútuvogi.
Kringlan er stærsta og verðmætasta fasteign Reita. Jólavertíðin var góð og sala Kringlugjafakorta fjórföld á við fyrra ár. Kúmen og stækkun kvikmyndahússins hafa skilað auknum gestafjölda í Kringluna og aukinni ánægju viðskiptavina en Kringlan hlaut viðurkenningu Íslensku ánægjuvogarinnar sem besta verslunarmiðstöðin árið 2023. Stafræn þróun Kringlunnar heldur áfram, gjafakortin eru orðin rafræn og nú er hægt að versla í eina körfu úr yfir 30 verslunum á kringlan.is.
Deiliskipulagsvinna vegna fyrsta áfanga Kringlureitsins er komin á fleygiferð, verkefnið er unnið náið með Reykjavíkurborg. Að því gefnu að engar stórar hindranir verði í vegi er reiknað með að afgreiðsla á deiliskipulagi til auglýsingar geti orðið á árinu.
Sjálfbærni og umhverfismál eru Reitum mikið hjartans mál. Með ábyrgri sýn á þróunarverkefni þar sem uppbygging samfélags, umhverfisvernd og arðbærni eru lykilþættir geta Reitir haft hvað mest áhrif til góðs, enda verður meginhluti kolefnisspors bygginga til á uppbyggingartíma. Með þetta í huga hafa Reitir lagt áherslu á að þróun á vegum félagsins fylgi stöðlum viðurkenndra umhverfisvottunarkerfa. Deiliskipulag Korputúns, sem tók gildi á árinu 2023, er á lokastigum BREEAM Communities vottunarferlis og Kringlureitur er skipulagður út frá kröfum sama staðals. Hóteluppbyggingin fer fram samkvæmt BREEAM Construction staðlinum. Reitir gefa nú út sjálfbærniskýrslu í fimmta sinn og er hún unnin í samræmi við UFS leiðbeiningar Nasdaq en Reitir eru Nasdaq ESG Transparency Partner.
Framtíðin er björt hjá Reitum, rekstur félagsins er stöðugur og góður. Fjölda fræja hefur verið sáð og gríðarleg tækifæri felast í þróunarverkefnum sem eru í undirbúningi. Það hafa verið forréttindi að starfa fyrir Reiti síðastliðin rúm 13 ár. En nú er komið að tímamótum hjá mér og ég hverf af þessum vettvangi og eftirlæt öðrum að viðhalda stöðugum rekstri og vökva fræin. Ég vil óska fjárfestum, viðskiptavinum og stjórn velfarnaðar og þakka fyrir ánægjulegt samstarf. Ég vil þó sérstaklega þakka samstarfsfólki mínu í gegnum tíðina hjá Reitum fyrir frábært samstarf.
Þakkir fyrir mig.